Starfskjarastefna félagsins

1. gr. Markmið

Með starfskjarastefnu Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf., (félagsins) eru settar reglur varðandi starfskjör stjórnenda, stjórnarmanna og starfsfólks sem tryggir eigenda/eigendum fulla innsýn í framkvæmd stefnunnar innan félagsins. Markmið starfskjarastefnunnar er að félagið og eftir atvikum dótturfélög þess séu samkeppnishæf og geti ráðið til sín framúrskarandi starfsfólk og stjórnendur. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að stjórn félagsins sé kleift að bjóða samkeppnishæf laun.

Starfskjarastefna félagsins er sett í samræmi við þau skilyrði sem m.a. koma fram í 79. gr. a. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og með hliðsjón af leiðbeiningum um góða stjórnarhætti fyrirtækja.

2. gr. Starfskjör stjórnarmanna og nefndarmanna

Stjórnarmönnum skal greidd þóknun í samræmi við ákvörðun aðalfundar ár hvert, svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Nefndarmönnum í undirnefndum stjórnar skal sömuleiðis greidd þóknun í samræmi við ákvörðun aðalfundar ár hvert.

Fyrir aðalfund ár hvert skal stjórn félagsins leggja fram tillögu um þóknun stjórnar og nefndarmanna fyrir komandi starfsár og skal í þeim efnum taka mið af þeim tíma sem stjórnarmenn og nefndarmenn verja til starfans, sérþekkingu þeirra og reynslu, þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir, afkomu félagsins og markmiðum starfskjarastefnu þessarar. Óheimilt er að gera starfslokasamning við stjórnarmenn.

3. gr. Starfskjör framkvæmdastjóra

Gera skal skriflegan ótímabundinn ráðningarsamning við framkvæmdastjóra félagsins þar sem starfskjör eru ítarlega skilgreind og skýrt kemur fram hver eru grunnlaun, breytileg laun, lífeyrisréttindi, orlof, önnur hlunnindi og uppsagnarfrestur.

Við gerð ráðningarsamnings við framkvæmdastjóra skal haft að leiðarljósi að ekki komi til frekari greiðslna við starfslok en fram koma í ráðningarsamningi, sem skal að hámarki gera ráð fyrir 3ja mánaða uppsagnarfresti.

Fjárhæð heildarlauna framkvæmdastjóra, þ.e. grunnlauna, hlunninda og eftir atvikum árangurstengdra greiðslna, skal taka mið af hæfni, menntun, reynslu, ábyrgð og umfangi starfans, auk þess sem horfa skal til innri þátta félagsins, launadreifingar innan þess og að heildarlaun séu samkeppnishæf á þeim markaði sem félagið starfar á.

4. gr. Starfskjör æðstu stjórnenda og starfsfólks

Gera skal skriflega ótímabundna skriflega ráðningarsamninga við aðra æðstu stjórnendur félagsins þar sem starfskjör eru ítarlega skilgreind og skýrt kemur fram hver eru grunnlaun, lífeyrisréttindi, orlof, önnur hlunnindi og uppsagnarfrestur.

Á sama hátt skal gera skriflega ótímabundna ráðningarsamninga við starfsfólk um kaup og kjör sem tryggi þeim eðlilegan og sanngjarnan afrakstur vinnu sinnar, þar sem starfskjör eru ítarlega skilgreindu og skýrt kemur fram hver eru grunnlaun, lífeyrisréttindi, oflof og önnur hlunnindi og uppsagnarfrestur.

Heimilt er að gera tímabundna ráðningarsamninga við starfsfólk ef samningurinn er aðeins til tveggja ára, sem inniheldur sömu atriði og kveðið er á um í 2. mgr. hér að framan.

Félagið veitir stjórnendum eða starfsmönnum ekki lán.

5. gr. Skýrsla vegna starfskjarastefnu

Framkvæmdastjóri skal útbúa skýrslu um framkvæmd gildandi starfskjarastefnu fyrir liðið fjárhagsár og leggja fyrir stjórn félagsins til umfjöllunar og samþykktar samhliða umfjöllun um ársreikning.

Í skýrslu um framkvæmd starfskjarastefnu skal koma fram yfirlit yfir allar greiðslur launa og hvers kyns hlunninda til stjórnarmanna, nefndarmanna og æðstu stjórnenda félagsins. Meðal upplýsinga sem skulu koma fram í skýrslu um framkvæmd starfskjarastefnunnar eru eftirfarandi upplýsingar:

a) Heildargreiðslur ásamt sundurliðun eftir eðli slíkra greiðslna og skýringar á grundvelli þeirra að teknu tilliti til starfskjarastefnu þessarar og áðurnefndra árangursviðmiða. b) Breytingar á greiðslum frá fyrra ári og skýringar á forsendum breytinga, hafi þær orðið, með hliðsjón af gengi félagsins og launaþróun annarra starfsmanna. c) Greiðslur eftir atvikum frá öðrum félögum innan samstæðu félagsins, hafi komið til slíkra greiðslna. d) Upplýsingar um frávik frá starfskjarastefnu þessari, hafi komið til frávika, og skýringar á ástæðum þeirra og hvernig þau falla að markmiðum starfskjarastefnunnar. e) Upplýsingar um tilmæli eiganda frá fyrra ári varðandi starfskjarastefnuna og starfskjaraskýrsluna og hvernig tillit var tekið til þeirra.

Stjórn skal birta hluthafa umrædda skýrslu eigi síðar en 5 dögum fyrir aðalfund, gera grein fyrir efni hennar á aðalfundi félagsins og leggja hana fyrir fundinn til staðfestingar. Við gerð skýrslu um framkvæmd starfskjarastefnunnar skal taka við af ákvæðum laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

6. gr. Samþykki starfskjarastefnu og fl.

Starfskjarastefna félagsins skal samþykkt á aðalfundi félagsins. Starfskjarastefna félagsins skal koma til árlegrar endurskoðunar hjá stjórn félagsins fyrir aðalfund ár hvert. Á aðalfundi skal stjórn gera grein fyrir veigamiklum breytingum á stefnunni á milli ára, ef við á, og með hvaða hætti þær samræmast markmiðum stefnunnar og tilmælum hluthafa á undangengnum aðalfundi í tengslum við starfskjarastefnuna. Komi til þess að starfskjarastefna félagsins sé ekki samþykkt á aðalfundi félagsins, skal fyrri starfskjarastefna halda gildi sínu og greiðslur vera framkvæmdar í samræmi við hana, þar til ný stefna hefur verið samþykkt af aðalfundi.

Starfskjarastefnu þessa skal birta á heimasíðu félagsins ásamt því að gerðar eru aðgengilegar niðurstöður atkvæðar á aðalfundi vegna staðfestingar stefnunnar ár hver, eins og við getur átt. Starfskjarastefnan skal vera aðgengileg á heimasíðu félagsins á meðan stefnan er í gildi. Stefnan tekur gildi eftir aðalfund félagsins 2020.

Samþykkt á hluthafafundi félagsins, 27. maí 2020